Wenger staðfestir áhuga á Cavani

Edinson Cavani er öflugur markaskorari.
Edinson Cavani er öflugur markaskorari. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur staðfest áhuga á Edinson Cavani, framherja Napoli. Cavani hefur skorað 16 mörk í ítölsku A-deildinni á þessari leiktíð.

Wenger var spurður um áhuga á Úrúgvæjanum í dag.

„Cavani er leikmaður sem ég kann vel að meta. Mun hann kosta mikið? Það er víst. Enginn myndi neita því en gjaldkerinn okkar býr við hliðina á mér í augnablikinu og er klár ef við finnum rétta leikmanninn,“ sagði Wenger sem staðfesti einnig áhuga á Wilfried Zaha, kantmanni Crystal Palace. Zaha er einnig í sigti Manchester United.

„Við erum að skoða Zaha en höfum ekki gert tilboð í hann. Ég veit ekki hvort Manchester United er að reyna að fá hann. Það er líka sama hvaða félag maður talar við, manni er alltaf sagt að Man. Utd, Milan eða Real Madrid sé að reyna að fá leikmanninn og maður veit ekki hvort það er satt eða ekki,“ sagði Wenger.

Hann áréttaði einnig að 99% líkur væru á að Theo Walcott myndi gera nýjan samning við félagið líkt og greint var frá fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert