Emil Ásmundsson, knattspyrnumaður úr Fylki, skrifaði í gær undir samning við enska félagið Brighton til vorsins 2015, með opnum möguleika á einu ári til viðbótar.
Emil, sem er nýorðinn 17 ára, fór tvisvar til reynslu hjá Brighton og heillaði forráðamenn félagsins.
„Þetta gekk allt mjög vel og nú er draumurinn orðinn að veruleika. Þetta hefur mig dreymt um síðan ég var smástrákur,“ sagði Emil við Morgunblaðið í gær en hann lék sex leiki með Fylki í úrvalsdeildinni í fyrra og skoraði eitt mark, þá aðeins 16 ára gamall og í 3. flokki.
„Ég þekkti aðeins til Brighton-liðsins eftir að hafa séð það spila gegn mínum mönnum í Liverpool og þetta er flott félag. Hérna er splunkunýr aðalleikvangur og glæsilegt æfingasvæði verður tekið í notkun seinna á árinu. Aðstaðan er góð og allt til alls,“ sagði Emil sem fer beint til æfinga með U19 ára liði félagsins.
„Ég byrja þar og svo er framhaldið bara undir sjálfum mér komið,“ sagði Emil sem á að baki 13 leiki með U17 ára landsliði Íslands og einn með U19 ára landsliðinu.
„Emil hefur vaxið með hverri raun. Hann var fyrst í b-liðinu hjá U17, vann sig strax í a-liðið, og hjá Brighton stóð hann sig mjög vel í fyrra skiptið, og enn betur í það síðara þegar þeir vildu sjá meira,“ sagði Ólafur Garðarsson umboðsmaður sem samdi með Emil í gær.