Sir Alex Ferguson var ánægður með frammistöðu sinna manna í Manchester United þrátt fyrir 1:1-jafntefli við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hann var hundóánægður með annan aðstoðardómara leiksins, Simon Beck, sem Skotanum fannst eiga að benda dómara leiksins á að dæma vítaspyrnu.
Ferguson taldi að um víti hefði verið að ræða þegar Wayne Rooney féll við í vítateig Tottenham en þá var staðan 1:0 gestunum í vil. Tottenham tókst svo að jafna í uppbótartíma.
„Þetta var klárlega víti. Það var augljóst. Hann setti löppina fyrir hann. Línumaðurinn sá þetta vel en hann átti mjög lélegan leik. Hann olli vonbrigðum,“ sagði Ferguson og rifjaði upp leik United og Chelsea frá því í apríl 2010 sem Chelsea vann.
„Við höfum lent í honum áður. Hann flaggaði aldrei rangstöðu á Didier Drogba á Old Traffrod á sínum tíma, þótt hann væri þrjá metra fyrir innan. Það muna allir eftir þessu, alla vega ég,“ sagði Ferguson.
„Þetta var mjög léleg frammistaða hjá honum og ég skil ekki hvers vegna hann dæmdi ekki víti. Hann átti skelfilegan leik og við fengum aldrei neitt á þessum vallarhelmingi,“ bætti Skotinn við.