Oldham vann í gær óvæntan og frækinn sigur á Liverpool, 3:2, í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar en það er samt ekki víst að knattspyrnustjóri félagsins, Paul Dickov, haldi starfi sínu.
Dickov er valtur í sessi vegna þess að liðinu hefur gengið illa í undanförnum leikjum og er aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti í ensku C-deildinni.
„Okkur gengur illa í deildinni og þurfum að bæta okkar stöðu þar. Sjáum til hvað gerist, það hefur ekkert verið ákveðið. Í fótboltanum breytast hlutirnir hratt. Ef þúsund manns hefðu verið spurðir í síðustu viku hefðu 999 þeirra sagt að við ættum að skipta um knattspyrnustjóra. Eftir þennan sigur hefðu 999 sagt að við ættum ekki að gera það. Ég viðurkenni fúslega að þetta er afar erfið staða," sagði stjórnarformaður Oldham, Simon Corney, við BBC.
Oldham er komið í 16-liða úrslit í fyrsta skipti í 19 ár en liðið komst síðast í undanúrslit bikarkeppninnar árið 1994. Liðið mætir Everton á heimavelli í 5. umferðinni.
Paul Dickov, sem sjálfur skoraði 101 mark í 424 deildaleikjum, þar sem hann lék lengst með Manchester City, hefur stjórnað Oldham í hálft þriðja ár og spilaði sjálfur með liðinu til að byrja með.