Englendingurinn David Beckham skýrði frá því á fréttamannafundi í París fyrir stundu að hann myndi láta öll laun sem hann fær frá franska knattspyrnufélaginu París SG renna til barnahjálpar í borginni.
Beckham samdi við Parísarliðið til vorsins. Hann var laus undan samningi sínum við Los Angeles Galaxy en þar hefur hann spilað frá 2007 og orðið meistari með liðinu í MLS-deildinni undanfarin tvö ár. Áður varð hann sex sinnum enskur meistari og einu sinni Evrópumeistari með Manchester United og einu sinni spænskur meistari með Real Madrid. Þá var Beckham lengi fyrirliði enska landsliðsins og lék 115 landsleiki á árunum 1996 til 2009.
„Ein ástæða þess að ég ákvað að koma til Parísar er sú að við ákváðum að gera eitthvað alveg nýtt. Ég mun ekki þiggja nein laun. Þau munu renna til barnahjálpar í nágrenninu. Við erum mjög spennt fyrir því að gera þetta á þennan hátt og mjög stolt af því. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið gert áður," sagði Beckham á fundinum og staðfesti að um háa upphæð væri að ræða en gaf ekki meira út á það.
Hann sagði ekki ljóst hvað tæki við þegar þessu keppnistímabili lyki. „Nei, við höfum ekki rætt það til fulls, rétt velt því fyrir okkur. En við stefnum á langa samvinnu. Ég mun spila á skammtímasamningi en er afar stoltur af því að tilheyra félagi sem á eftir að vaxa og verða eitt af stórveldum Evrópu," sagði Beckham.
Hann var spurður að því hver myndi taka aukaspyrnurnar fyrir Parísarliðið, hann eða Zlatan Ibrahimovic. „Hann er stærri en ég, kannski tekur hann þær. Ef ég fæ tækifæri er ég viss um að við leysum það. Það geta líka fleiri í liðinu skorað úr aukaspyrnum," sagði Beckham brosandi.
Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hvenær hann myndi spila sinn fyrsta leik í búningi París SG. „Ég veit það ekki. Við ákváðum þetta um klukkan eitt í nótt og gengum frá því um ellefuleytið í morgun. Ég hef æft með Arsenal undanfarið og verð fljótur að komast í form. Ég verð örugglega ekki tilbúinn á föstudaginn en vonandi innan fárra vikna. Ég get hlaupið og hef ekki misst niður neinn hraða, vegna þess að satt best að segja hef ég aldrei verið sérstaklega fljótur að hlaupa!"
„Ég er mjög heppinn. Ég er 37 ára gamall og fékk mörg tilboð, fleiri en ég hef áður fengið á mínum ferli. Ég valdi PSG því ég sé hvað félagið er að reyna að gera og hvernig leikmenn það er að fá til sín. Borgin er spennandi og PSG er félag sem á eftir að verða mjög sigursælt næstu 10 til 20 árin. Ég segi ekki að ég muni spila í 10 til 20 ár en á þessari stundu er ég afar stoltur yfir því að hafa verið fenginn til að taka þátt í framtíðarmótun PSG,“ sagði Beckham.