Paul Lambert, knattspyrnustjóri Aston Villa, er hæstánægður með liðstyrkinn sem hann fékk á lokadegi félagaskipta í gær en Villa þarf nauðsynlega að hysja upp um sig brækurnar í ensku úrvalsdeildinni ef það vill halda sæti sínu þar.
Villa gekk í gær frá kaupum á Yacouba Sylla, 22 ára frönskum miðjumanni frá Clermont, og kantmanninum Simon Dawkins frá Tottenham.
Sylla hefur aldrei spilað í efstu deild á ferlinum og þá hefur Dawkins eytt undanförnum tveimur árum í láni hjá San Jose í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.
„Þeir eru báðir tilbúnir í slaginn,“ sagði Lambert á blaðamannafundi í dag en Aston Villa mætir Everton á útivelli á morgun.
„Sylla mun koma með aukinn kraft á miðjuna sem okkur vantar. Hann vinnur skítverkin sem eru svo mikilvæg. Simon getur spilað hvar sem er. Hann mun koma fólki á óvart. Hann mun búa til færi og láta hluti gerast,“ sagði Paul Lambert.