Í dag eru 55 ár liðin frá því að flugvél Manchester United-liðsins hrapaði í München í Þýskalandi. 23 létust í slysinu, þar af átta leikmenn Manchester United og þrír starfsmenn félagsins.
Liðið var á leið heim frá Belgrad, þar sem liðið atti kappi við Rauðu stjörnuna í Evrópukeppninni. Flugvélin lenti í München til þess að taka eldsneyti, en hrapaði svo í flugtaki með fyrrgreindum afleiðingum. Sir Matt Busby, þjálfari liðsins, var einn þeirra sem lifðu af og stýrði liðinu til Evrópumeistaratitils einungis tíu árum eftir harmleikinn.
Ryan Giggs, leikreyndasti leikmaður Manchester United, ræddi við heimasíðu félagsins um hvaða þýðingu harmleikurinn hefði fyrir núverandi leikmenn. „Við horfðum allir á DVD disk um München nýverið og það var mjög mikilvægt fyrir hópinn að fræðast um hvað gerðist. Ekki bara um slysið sjálft, heldur um hvernig liðið hélt áfram og um velgengnina sem fylgdi í kjölfarið.“