Cardiff City þurfti ekki að skora mark í dag til að auka forskot sitt á toppi ensku B-deildarinnar í knattspyrnu í heil ellefu stig.
Cardiff sótti Huddersfield heim og leikur liðanna endaði 0:0. Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn með Cardiff og Heiðar Helguson seinni hálfleikinn.
Leicester, sem er í öðru sæti, tapaði óvænt fyrir Peterborough, 2:1, en Hull gæti hinsvegar saxað á forskotið seinna í dag þegar liðið sækir Brighton heim.
Cardiff er með 64 stig, Leicester 53, Watford 53, Hull 53 og Crystal Palace 52 í efstu sætum deildarinnar.
Wolves knúði fram jafntefli gegn Leeds, 2:2, með því að jafna í uppbótartíma. Björn Bergmann Sigurðarson kom inná hjá Wolves á 78. mínútu en Eggert Gunnþór Jónsson var ekki í leikmannahópi liðsins. Úlfarnir eru komnir í bullandi fallhættu en þeir eru í 21. sæti af 24 liðum með 34 stig, jafnmörg og Barnsley sem er í fallsæti. Fyrir neðan eru Bristol City með 31 stig og Peterborough með 30 stig.