Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkenndi eftir sigurinn á Everton í dag að hann hefði breytt fyrri áætlunum sínum um liðsval eftir að Manchester City tapaði fyrir Southampton í gær.
Ferguson hafði áður sagt að hann yrði með tvö ólík lið í leikjunum við Everton í dag og Real Madrid næsta miðvikudag, og hann hygðist gera sjö breytingar á byrjunarliðinu milli leikja.
„Þegar ég sá hvernig fór í gær, gerði ég mér grein fyrir því hversu mikilvægur leikurinn við Everton yrði fyrir okkur,“ sagði Ferguson við Sky Sports, en einu lykilmennirnir sem hann var ekki með í byrjunarliðinu í dag voru Michael Carrick og Rio Ferdinand.
Ferguson hrósaði mjög hinum 39 ára gamla Ryan Giggs sem skoraði fyrra mark United. „Hann er stórkostlegur. Hann hleypur fram og til baka allan leikinn og það var yndislegt að sjá hversu mikla orku hann átti í þennan leik,“ sagði Ferguson, sem væntanlega teflir þá Giggs ekki fram í Madríd á miðvikudagskvöldið.