Ryan Giggs, aldursforseti Manchester United og annar markaskorara liðsins í dag, sagði að einbeiting hefði verið lykilatriðið í sigrinum mikilvæga á Everton, 2:0, á Old Trafford.
„Við urðum að vera með einbeitinguna í lagi, því við mundum vel hvað gerðist í heimaleiknum gegn Everton í fyrra, enda eru þeir með hörkulið. Við vissum að ef við værum einbeittir ættum við mjög góða sigurmöguleika,“ sagði Giggs á fréttamannafundi eftir leikinn.
„Markið var að sjálfsögðu mikilvægt, það er aðalatriðið. Markið kom okkur í gang og eftir það spiluðum við vel, sem þurfti gegn góðu Everton-liði. Aðalmálið var að ná í þrjú stig. Frammistaðan skipti ekki eins miklu máli en ég tel að við höfum spilað vel. Ef við höldum áfram á þessari braut og knýjum fram réttu úrslitin verður þetta allt í lagi," sagði Ryan Giggs.