Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði sínum mönnum eftir tapið gegn West Brom í gærkvöldi en lærisveinum hans tókst á ótrúlegan hátt að tapa leiknum þrátt fyrir að ráða lögum og lofum allan tímann.
WBA átti ekki skot að marki fyrr en á 80. mínútu en það varð að hornspyrnu. Úr henni skoraði Gareth McAuley fyrra markið og það síðara gerði Romelu Lukaku á 90. mínútu.
„Leikmennirnir mínir gáfu allt í leikinn. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem við gátum ekki brotið ísinn,“ sagði Rodgers en Ben Foster, markvörður WBA, átti stórleik og varði meðal annars vítaspyrnu frá Steven Gerrard.
„Því lengur sem jafnt er í leiknum - því líklegra er að hitt liðið poti inn marki. Ég get ekki kvartað yfir framlagi leikmanna í dag. Þetta var bara einn af þeim leikjum sem við gátum ekki skorað fyrsta markið.“
„Ég get ekki kennt Gerrard um að klúðra vítinu. Hann átti frábæran leik og hafði hugrekki til að taka spyrnuna,“ sagði Brendan Rodgers en WBA fór upp fyrir Liverpool í áttunda sætið með sigrinum.