Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal brást heldur pirraður við á fréttamannafundi í dag þegar hann var spurður út í orðróm þess efnis að nýr samningur hans við félagið til ársins 2016 væri í burðarliðnum. Sagði hann nákvæmlega ekkert hæft í því og að hann teldi sig verðskulda betri meðferð fjölmiðla.
„Þetta eru rangar fregnir. Ég hef starfað í 16 ár á Englandi og finnst ég eiga annað og betra skilið en að svona ósönnum fréttum sé dreift í þeim eina tilgangi að valda skaða,“ sagði Wenger. Núgildandi samningur hans við Arsenal rennur út á næsta ári en Wenger hefur áður sagt að nú sé ekki tíminn til að ræða nýjan samning.
„Ef að menn fá réttar upplýsingar einhvers staðar frá þá er það í lagi, en þetta eru rangar upplýsingar. Gjörsamlega rangar,“ bætti Frakkinn við.
Arsenal mætir Bayern München annað kvöld í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en ljóst er að eina von Wengers um að landa titli á leiktíðinni, og binda þar með endi á 8 ára bið eftir titli, felst í að vinna þá keppni.