Courtois: Tek við af Cech eftir tvö ár

Thibaut Courtois í leik með Atlético Madrid.
Thibaut Courtois í leik með Atlético Madrid. AFP

Belgíski markvörðurinn Thibaut Courtois er þess fullviss að hann muni taka við af Petr Cech sem aðalmarkvörður Chelsea áður en langt um líður en Courtois hefur verið á láni hjá Atlético Madrid frá því að hann samdi við Chelsea sumarið 2011.

Courtois er aðeins tvítugur en hefur verið aðalmarkvörður Atlético frá því að hann var lánaður til félagsins. Hann tók við þeirri stöðu af öðrum ungum markverði, David de Gea.

Courtois segist enga trú hafa á því að hann verði notaður sem skiptimynt þegar Chelsea freisti þess að kaupa markaskorarann magnaða Falcao af Atlético í sumar, honum sé ætlað hlutverk á Stamford Bridge.

„Það er mikið bullað í blöðunum. Þar eru menn bara að giska. Þeir vita að Chelsea vill Falcao en Chelsea hefur sagt við mig að það síðasta sem þeir vilji sé að selja mig. Kannski eru þeir að ljúga en ég held ekki,“ sagði Courtois við Evening Standard.

„Cech er einn besti markvörður heims en ég tel að ég sé hæfileikaríkur og á uppleið, með getuna til að spila fyrir Chelsea. Þeir munu samt nota Cech næstu tvö árin reikna ég með. Málið er að ég held að Chelsea hafi ekki reiknað með að ég yrði þetta góður svo snemma. Ég hef blómstrað mjög hratt. Þetta er mjög góð staða fyrir Chelsea,“ sagði Courtois kokhraustur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert