Wenger: Kærkomið eftir krísu

Santi Cazorla gerði það sem bestu leikmennirnir gera í dag, …
Santi Cazorla gerði það sem bestu leikmennirnir gera í dag, sagði Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir leikmenn sína hafa verið stressaða í leiknum gegn Aston Villa í dag eftir vonbrigðin síðustu vikur, en sigurinn hjálpi liðinu að jafna sig. Hann hrósaði hetjunni Santi Cazorla sem skoraði bæði mörkin í 2:1 sigri.

Arsenal féll um síðustu helgi úr leik fyrir B-deildarliði Blackburn í enska bikarnum, eftir að hafa fyrr í vetur fallið úr leik í deildabikarnum gegn D-deildarliði Bradford, og tapaði svo 3:1 á heimavelli fyrir Bayern München í Meistaradeildinni í vikunni.

„Við höfðum orðið fyrir miklum vonbrigðum í tvígang og liðið var svolítið stressað en einbeitt frá byrjun leiks. Þetta var verðskuldaður sigur og hann ætti að gera andrúmsloftið þægilegra. Þetta hefur verið svolítið erfitt síðustu daga. Það var mikilvægt að ná þessum sigri í dag,“ sagði Wenger sem var svo spurður um framlag Spánverjans Santi Cazorla.

„Bestu leikmennirnir gera sitt þegar á þarf að halda og Santi Cazorla gerði það í dag. Þegar maður er að koma úr svona krísu eins og við höfum verið í þá gæti maður sætt sig við jafntefli en maður þakkar fyrir að ná sigri,“ sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert