Enska knattspyrnufélagið Arsenal tilkynnti í dag að hagnaður þess á seinni hluta ársins 2012 hefði numið 17,8 milljónum punda, sem samsvarar rúmlega 3,4 milljörðum íslenskra króna.
Það er fyrst og fremst salan á Robin van Persie til Manchester United síðasta sumar sem gerir útslagið í þessu. Um leið hækkar eiginfjárstaða félagsins um 7 milljónir punda og er nú 123,3 milljónir punda.
„Möguleikar okkar á að berjast á toppnum hér heima og í Evrópu eru undirstrikaðir með fjárhagslegri frammistöðu okkar, en hún veitir félaginu mikinn styrk og sjálfstæði. Okkar markmið er að gera alla sem tengjast Arsenal stolta af félaginu. Við vitum að það gerist með því að vinna titla, en líka með því að standa á réttan hátt að öllum hlutum og það munum við stöðugt gera,“ sagði Peter Hill-Wood, stjórnarformaður Arsenal, í yfirlýsingu frá félaginu.
Reiknað er með að knattspyrnustjórinn Arsene Wenger fái umtalsverðar fjárhæðir til umráða í sumar til að styrkja liðið sem nú er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar og stendur höllum fæti gegn Bayern München eftir 1:3 tap í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.