Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Chelsea til bráðabirgða, segir að samband sitt við eiganda félagsins, Roman Abramovich sé frábært og hann muni stjórna liðinu út þetta keppnistímabil. Þetta sagði hann í samtali við BBC.
Benítez hefur verið heldur betur í sviðsljósinu í Englandi síðan í gærkvöld þegar hann sendi stuðningsmönnum Chelsea kaldar kveðjur eftir bikarsigurinn á Middlesbrough og sagði jafnframt að það hefðu verið mistök hjá félaginu að kalla sig „knattspyrnustjóra til bráðabirgða.“ Í framhaldinu hefur framtíð hans hjá Chelsea verið rædd fram og til baka og margir talið vonlaust fyrir hann að halda áfram til vorsins.
Benítez sagði í gærkvöld að það væri tímasóun hjá stuðningsmönnum Chelsea að útbúa skilti um sig og syngja níðsöngva í sinn garð. Þeir ættu frekar að einbeita sér að því að styðja liðið því hann myndi hætta störfum í vor.