Mourinho efstur á blaði hjá Chelsea

Snýr José Mourinho aftur á Stamford Bridge?
Snýr José Mourinho aftur á Stamford Bridge? AFP

Enskir veðbankar telja nú langlíklegast að José Mourinho snúi aftur á Stamford Bridge í sumar og taki á ný við starfi knattspyrnustjóra Chelsea.

Jafnframt þykja líkurnar á að Rafael Benítez ljúki ekki tímabilinu hjá Lundúnaliðinu hafa aukist til muna eftir atburði gærkvöldsins, eftir að hann hellti úr skálum reiði sinnar í garð stuðningsmanna Chelsea í kjölfarið á bikarsigrinum í Middlesbrough. Þá sagði hann jafnframt að það hefðu verið mistök hjá Chelsea að skipa sig knattspyrnustjóra með aukatitlinum „til bráðabirgða.“

David Moyes hjá Everton er næstur á eftir Mourinho á lista Sky Bet, en síðan koma Michael Laudrup, Gus Poyet, John Terry og Jürgen Klopp.

Þá segja sérfræðingarnir að ef Benítez verði látinn fara áður en tímabilinu líkur sé ekki ólíklegt að Avram Grant yrði fenginn til að stjórna liðinu á lokasprettinum í vor.

Mourinho var við stjórnvölinn hjá Chelsea á árunum 2004 til 2007 en á þeim tíma varð liðið tvisvar enskur meistari, vann bikarinn einu sinni og deildabikarinn tvisvar. Hann stjórnaði Inter Mílanó 2008 til 2010 og hefur frá þeim tíma verið með lið Real Madrid.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert