Það styttist óðum í stórleik Manchester United og Real Madrid sem fram fer á Old Trafford í kvöld kl. 19:45 og ræður úrslitum um það hvort liðið kemst í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Jose Mourinho knattspyrnustjóri Real segir heimsbyggðina bíða eftir leiknum.
Staðan er 1:1 í einvíginu og því ljóst að markalaust jafntefli í kvöld myndi duga United til sigurs.
„Hver veit hvað mun ráða úrslitum? Það er stóra spurningin. Heimurinn mun stöðvast út af þessum leik,“ sagði Mourinho í gær.
„United er á ótrúlegu flugi, betra en nokkru sinni á þessari leiktíð. Liðið er komið í 8-liða úrslit bikarsins, búið að vinna úrvalsdeildina í mars, og tapa ekki leik svo mánuðum skiptir. En við höfum líka verið á góðu flugi eftir áramót. Við höfum bara tapað einum leik,“ sagði Mourinho.
„Þetta virkar á mann eins og úrslitaleikur. Við skulum sjá hvaða lið mætast á Wembley en ég efast um að væntingarnar verið eins miklar og núna,“ bætti Portúgalinn við.