Ferguson sendi Phelan: Allir niðurbrotnir

Sir Alex Ferguson leyndi því ekki hve foxillur hann var …
Sir Alex Ferguson leyndi því ekki hve foxillur hann var yfir þeirri ákvörðun dómarans að reka Nani af velli í kvöld. AFP

Sir Alex Ferguson var engan veginn í ástandi til að sitja fyrir svörum fréttamanna eftir tapið gegn Real Madrid í kvöld að sögn Mikes Phelans aðstoðarknattspyrnustjóra Manchester United sem svaraði spurningum í stað Skotans.

Real vann leikinn 2:1, og einvígið 3:2, og komst þar með í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Rauða spjaldið sem Nani fékk að líta snemma í seinni hálfleiknum var mönnum ofarlega í huga á fréttamannafundinum enda United-menn æfir yfir dómnum.

„Það eru allir niðurbrotnir inni í klefa, og stjórinn er niðurbrotinn. Þess vegna sit ég hérna. Okkur fannst við hafa lagt upp leikinn með hárréttum hætti. Okkur leið vel og vildum halda þessu í 0:0. Svo skoruðum við og vorum komnir í sterka stöðu, en þá gjörbreyttist leikurinn snarlega,“ sagði Phelan og vísaði til brottrekstursins.

„Þetta var ótrúleg ákvörðun, en við urðum að halda áfram. Það er mjög erfitt að spila við Real Madrid með 11 menn, og við erum hrikalega vonsviknir að þessi svakalegi leikur, sem allur heimurinn fylgdist með, skyldi þróast þannig að við værum með 10 menn inná,“ sagði Phelan.

„Stjórinn er ekki í neinu ástandi til að ræða við dómarann um þessa ákvörðun. Ég held að það segi sína sögu að ég skuli vera mættur til að tala við ykkur í stað knattspyrnustjóra þessa frábæra knattspyrnufélags. Við sáum öll dóm sem virtist virkilega strangur, kannski fáránlegur, á þessum tímapunkti í leiknum,“ sagði Phelan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert