Ferdinand ósáttur: Eiga að vita betur

Rio Ferdinand fagnar marki með Manchester United.
Rio Ferdinand fagnar marki með Manchester United. AFP

Rio Ferdinand er ósáttur við þá gagnrýni sem hann hefur fengið fyrir að draga sig út úr enska landsliðshópnum fyrir leikina við San Marínó og Svartfjallaland í undankeppni HM.

Ferdinand fundaði með Roy Hodgson landsliðsþjálfara í fyrradag og útskýrði fyrir honum að bakmeiðslin sem hann hefur lengi glímt við gætu bundið enda á leiktíðina, færi hann ekki nákvæmlega eftir meðferðaráætlun sérfræðinga. Sú áætlun gerir ekki ráð fyrir tveimur landsleikjum á þessum tíma.

Ekki hafa allir tekið þessa afsökun Ferdinands gilda og við það er miðvörðurinn ósáttur.

„Ég hélt að fyrrverandi íþróttamenn, sem hafa reynslu af meiðslum og meðferð þeirra, vissu betur en að halda fram einhverju kjaftæði eins og þeir eru að gera...“ skrifaði Ferdinand á Twitter-síðu sína án þess þó að nafngreina neinn.

„Ég er miður mín yfir að þurfa að draga mig út úr enska landsliðshópnum, en það var rétt ákvörðun vegna þeirrar flóknu meðferðaráætlunar sem ég þarf að fylgja,“ skrifaði Ferdinand einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert