Rosický: Verðum að vinna heimaleikina

Rosický fagnar öðru markinu með Gervinho.
Rosický fagnar öðru markinu með Gervinho. AFP

Tékkinn Tomás Rosický hefur ekki verið iðinn við markaskorun fyrir Arsenal á sínum ferli í Lundúnum en hann tók sig til og skoraði bæði mörkin í mikilvægum sigri á WBA um helgina, 2:1.

Með sigrinum nálgast Arsenal erkifjendurnar í Tottenham enn frekar í baráttunni um fjórða sætið en nú munar aðeins tveimur stigum á liðunum og Arsenal á leik til góða.

„Við höfum verið að spila góðan fótbolta undanfarið. Það gefur manni sjálfstraust að vinna í München og á útivelli gegn liði eins og West Brom þegar bakið er upp við vegg síðustu 20 mínútur leiksins,“ sagði Rosický við heimasíðu Arsenal eftir leikinn.

„En ef við ætlum að ná þriðja eða fjórða sæti verðum við að vinna heimaleikina okkar. Gengi okkar þar verður komast í lag og það strax.“

„Ef tapleikurinn okkar gegn Tottenham er skoðaður kemur í ljós að við spiluðum ekkert illa. Við gerðum bara tvö heimskuleg mistök og okkur var refsað í bæði skiptin. Við fórum strax í að vinna í okkar leik og afraksturinn sást í leiknum þar á eftir gegn Bayern,“ sagði Tomás Rosický.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert