Úlfarnir áfram í fallsæti eftir grátlegt tap

Björn Bergmann í baráttunni við Gary Cahill í leik Úlfanna …
Björn Bergmann í baráttunni við Gary Cahill í leik Úlfanna gegn Chelsea í enska deildabikarnum. AFP

Björn Bergmann Sigurðarson og félagar í Wolves töpuðu í dag fyrir Charlton á útivelli, 2:1, þar sem sigurmarkið kom í blálok leiksins. Úlfarnir eru því enn í fallsæti en næstu lið fyrir ofan töpuðu einnig.

Charlton komst í 1:0 á 63. mínútu en Kevin Doyle jafnaði jafnharðan fyrir Úlfana. Jonathan Obika skoraði svo sigurmarkið í lokin.

Á sama tíma tapaði Peterborough 3:1 fyrir Derby og Blackburn tapaði 4:0 fyrir Watford.

Staðan í fallbaráttunni er því þannig að Úlfarnir eru í þriðja neðsta sætinu með 51 stig, Peterborough með 51 stig og Blackburn með 53 stig. Markatala Peterborough er tveimur mörkum betri en hjá Úlfunum. Úlfarnir og Peterborough eiga tvo leiki eftir og Blackburn þrjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert