Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United var ekki ánægður með framgöngu Brasilíumannsins David Luiz undir lok leiks Manchester United og Chelsea á Old Trafford í gær.
United varð að sætta sig við 1:0 tap en þegar skammt var til leiksloka var Rafael, hægri bakvörður Manchester United, rekinn af velli eftir viðskipti við David Luiz.
Ferguson sagði að Luiz hefði sýnt leikræna tilburði en hann hafi verið eins og deyjandi svanur þegar hann lá í grasinu eftir að Rafael hafði gert tilraun til að sparka í landa sinn.
„Rafael var að hefna sín en Luiz gaf honum klárlega tvö olnbogaskot. Síðan veltist hann um eins og deyjandi svanur og það sannfærði dómarann um að veifa rauða spjaldinu. Luiz hló þegar hann lá í grasinu og það var ömurlegt að sjá. Ég er ekki að verja Rafael en hann er ungur og ætti að vita það að menn eiga ekki að reyna að hefna sín,“ sagði Ferguson.