Samtök atvinnuknattspyrnumanna í Englandi hafa tekið til rannsóknar þær refsingar sem Paolo Di Canio, nýráðinn stjóri Sunderland, hefur beitt leikmenn sína á undanförnum vikum.
Gordon Taylor, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði við BBC í dag að Di Canio gæti ekki tekið lögin í eigin hendur.
Di Canio skýrði frá því í síðustu viku að hann hefði sektað sjö leikmenn og hótað að selja þá sem hefðu ekki hagað sér vel.
Taylor sagði að samtökin myndu skoða hvort refsingar Ítalans væru ásættanlegar eða hvort ástæða væri til að bregðast við þeim. Hann viðurkenndi að hafa fengið kvartanir frá leikmönnum á sitt borð.
„Við hjá PFA erum ekki á móti aga en hann verður að vera innan ákveðinna marka. Við höfum sett upp viðmið í því fyrir félögin," sagði Taylor, sem fyrir 15 árum kom Di Canio til aðstoðar en þá var sá síðarnefndi leikmaður Sheffield Wednesday og hrinti dómara í leik.
„Samtökin voru til staðar fyrir Paolo þegar hann var leikmaður, og við verðum til staðar fyrir hans leikmenn í dag. Hann þekkir starfssvið PFA og veit að við gætum hagsmuna leikmannanna. Paolo getur ekki tekið lögin í sínar hendur. Hann þarf að hlíta reglum eins og aðrir, líka þegar kemur að því að hafa aga á sínum leikmönnum," sagði Gordon Taylor.