Mourinho með fjögurra ára samning við Chelsea

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Chelsea staðfesti rétt í þessu að José Mourinho hefði verið ráðinn knattspyrnustjóri félagsins til næstu fjögurra ára. Hann tekur þar með við liðinu á nýjan leik en það var sigursælt undir hans stjórn á árunum 2004 til 2007.

Eftir að ljóst varð 20. maí að Mourinho yrði ekki áfram við stjórnvölinn hjá Real Madrid að þessu keppnistímabili loknu beindust böndin að honum sem nýjum stjóra Chelsea. Það var óformlega staðfest um helgina, en forseti Real Madrid sagði spænskum fjölmiðlum eftir lokaumferð 1. deildarinnar þar í landi á laugardaginn að Mourinho myndi taka við Lundúnaliðinu á ný.

Þau rúmlega þrjú ár sem Portúgalinn stýrði Chelsea eru mesti sigurkaflinn í sögu félagsins, sem þá varð tvisvar enskur meistari, einu sinni bikarmeistari og tvisvar deildabikarmeistari.

Hann tók við liðinu sumarið 2004 en hætti störfum í september 2007 og hefur síðan stjórnað Inter Mílanó og Real Madrid. Inter varð ítalskur meistari bæði árin hans þar og vann Meistaradeildina að auki. Hjá Real vann hann bæði deildina og bikarinn á Spáni.

Þrír þjálfarar fylgja Mourinho á Stamford Bridge, þeir Rui Faria, Silvino Louro og Jose Morais. Í tilkynningu á vef Chelsea segir að Mourinho verði formlega kynntur til leiks á fréttamannafundi á Stamford Bridge næsta mánudag, 10. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert