Spænska landsliðið í fótbolta bætti enn einni rósinni í hnappagat sitt þegar það setti met með sigrinum á Nígeríu, 3:0, í lokaumferð B-riðils álfukeppninnar í gær.
Þetta var 28. leikur heims- og Evrópumeistaranna í röð á stórmóti án þess að tapa en ekkert lið hefur verið án taps í jafnmörgum leikjum.
Spánn er nú með 24 sigra og fjögur töp í síðustu 28 leikjum á stórmótum en síðast tapaði liðið á stórmóti gegn Sviss - afar óvænt - í fyrsta leik sínum á HM 2010 sem liðið endaði með að vinna.
Gamla metið átti hið frábæra lið Frakka í kringum aldamótin sem varð heims- og Evrópumeistari 1998 og 2000.
Leikurinn í gær var einnig sá 15. í röð sem spænska landsliðið skorar í en því mistókst síðast að skora í markalausu jafntefli gegn Portúgal í undanúrslitum EM 2012 en þar eru taldir með leikir í öllum keppnum.
Síðast tapaði Spánn fótboltaleik þegar liðið mætti Englandi í vináttuleik á Wembley-leikvanginum fyrir tveimur árum en enskir höfðu þá betur, 1:0.
Spánn getur haldið áfram að bæta met sitt á stórmótum þegar liðið mætir Ítalíu í undanúrslitum álfukeppninnar á fimmtudaginn.