Umsóknarferli bandaríska knattspyrnusambandsins til að fá Aron Jóhannsson löglegan með landsliðinu er farið af stað en sambandið lagði inn beiðni til FIFA í dag, að því fram kemur á vefsíðunni yanks-abroad.com sem fjallar um bandaríska knattspyrnumenn sem spila utan Bandaríkjanna.
„Aron Jóhannsson lét okkur vita að hann vildi spila fyrir Bandaríkin á alþjóðavettvangi. Við lögðum því inn beiðni til FIFA í morgun og vonumst til að það gangi í gegn,“ segir Michael Kammermann, fjölmiðlafulltrúi bandaríska knattspyrnusambandsins við síðuna.
Jürgen Klinsman, þjálfari Bandaríkjanna, fagnar því að fá Aron til liðs við sig en hann segist hafa rætt við Fjölnismanninn fyrrverandi undanfarna mánuði.
„Við erum ánægðir að Aron vilji spila fyrir Bandaríkin. Við höfum verið í sambandi við hann undanfarna mánuði. Hann er mikið efni sem á bjarta framtíð fyrir sér og okkur hlakkar til að kynna hann fyrir liðinu eins fljótt og hægt er,“ segir Klinsmann.
Aron má hvorki spila fyrir Ísland né Bandaríkin á meðan umsóknin er tekin fyrir en bandaríska knattspyrnusambandið vonast til að hann geti tekið þátt í vináttuleiknum gegn Bosníu og Hersegóvínu 14. ágúst í Sarajevo.