Björn Daníel Sverrisson miðjumaðurinn snjalli í liði Íslandsmeistara FH hefur skrifað undir þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið Viking og mun ganga í raðir þess þegar tímabilinu lýkur hér á landi.
Að því er fram kemur í netútgáfu norska blaðsins Stavanger Aftenblad mun Björn Daníel ganga í raðir Viking í október en verður ekki löglegur með liðinu fyrr en í janúar 2014. Þar með verða þrír Íslendingar í herbúðum Viking en fyrir er fyrirliðinn Indriði Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson.
„Ég er mjög ánægður með að hafa skrifað undir samning við Viking sem er eitt af stærstu félögunum í Noregi og hefur á góðu liði á að skipa. Félagið sýndi mér mikinn áhuga sem er mjög mikilvægt og ég veit að ég mun fá minn spilatíma með liðinu leggi ég hart að mér,“ segir Björn Daníel við Stavanger Aftenblad en samningur hans við FH rennur út í lok ársins.
Björn Daníel er 23 ára gamall og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið í lykilhlutverki hjá Hafnarfjarðarliðinu undanfarin ár og hefur í sumar verið einn af bestu leikmönnum Pepsi-deildarinnar.