Besta byrjun Liverpool í 19 ár

Liverpool vann í dag sætan sigur á erkifjendum sínum, ensku meisturunum Manchester United, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Anfield.

Daniel Sturridge skoraði strax á 4. mínútu og það reyndist vera sigurmarkið. Liverpool er nú á toppi deildarinnar með 9 stig eftir 3 leiki, hefur ekki fengið á sig mark, og þetta er besta byrjun liðsins í deildinni frá 1994, eða í 19 ár.

Manchester United er hinsvegar með 4 stig eftir fyrstu þrjá leikina og hefur nú ekki náð að skora í tveimur leikjum í röð.

Swansea fékk sín fyrstu stig með því að sigra WBA 2:0 á útivelli með mörkum frá Ben Davies og Pablo Hernández..

Úrslit í leikjunum:

Liverpool - Manchester United 1:0. LEIK LOKIÐ
Daniel Sturridge 4.

WBA - Swansea 0:2. LEIK LOKIÐ
Ben Davies 22., Pablo Hernández 83.

14.18 - Lucas hjá Liverpool fær  gult spjald á 90. mínútu fyrir að brjóta á Tom Cleverley sem var að sleppa upp hægra megin. Upplagt færi fyrir United, aukaspyrna á góðum stað.

14.16 - Eitt besta færi United, Robin van Persie fær sendingu inní vítateig Liverpool hægra megin frá Javier Hernández en skýtur framhjá með hægri fæti á 87. mínútu.

14.13 - MARK - 0:2 á The Hawthorns - Pablo Hernández bætir við marki á 83. mínútu fyrir Swansea sem er í þann veginn að innbyrða sín fyrstu stig gegn WBA.

14.13 - Luis Alberto kemur inná fyrir Philippe Coutinho hjá Liverpool á 83. mínútu.

14.07 - Glen Johnson fer meiddur af velli hjá Liverpool á 79. mínútu, eftir hörkutæklingu við Patrice Evra. Andre Wisdom kemur í hans stað.

14.05 - Simon Mignolet í marki Liverpool ver vel hörkuskot frá Nani á 77. mínútu.

14.02 - Javier Hernández kemur inná fyrir hinn aldna Ryan Giggs hjá United á 73. mínútu. Staðan enn 1:0 fyrir Liverpool.

13.52 - Nani kemur inná fyrir Ashley Young hjá Manchester United á 63. mínútu.

13.51 - Raheem Sterling kemur inná fyrir Iago Aspas hjá Liverpool á 60. mínútu.

13.47 - Danny Welbek fellur í vítateig Liverpool og vill fá vítaspyrnu. Það hefði verið strangur dómur. United setur talsverða pressu á heimamenn áfram.

13.39 - United sækir af krafti í byrjun síðari hálfleiks á Anfield og Robin van Persie á hörkuskot í varnarmann og horn á 50. mínútu. Frekari skothríð eftir tvö horn í röð en Liverpool stendur það af sér.

13.18 - Hálfleikur og Liverpool er 1:0 yfir gegn Manchester United, WBA er 0:1 undir gegn Swansea. Á Anfield var orðið ansi heitt í kolunum undir lok hálfleiksins og Robin van Persie framherji United sérstaklega kominn á hálan ís, á gulu spjaldi.

13.11 - Michael Carrick hjá United fær gula spjaldið á 41. mínútu fyrir að toga niður Iago Aspas. Greinilega mikill pirringur í liði United þessar mínúturnar.

13.09 - Robin van Persie hjá United fær gula spjaldið fyrir brot á Daniel Agger, miðverði Liverpool. Hollendingurinn orðinn pirraður, rétt á undan lét hann sig detta til að reyna að fiska aukaspyrnu en fékk ekki.

13.07 - Phil Jones hjá United þarf að fara af velli vegna meiðsla á 37. mínútu og Antonio Valencia kemur í hans stað.

13.06 - Gula spjaldið fer tvisvar á loft á Anfield. Fyrst er það Tom Cleverley hjá United fyrir brot og síðan Iago Aspas hjá Liverpool fyrir að heima gult spjald á Cleverley!

12.53 - Fyrri hálfleikur er hálfnaður á Anfield og Liverpool er yfir, 1:0. United sóttu af talsverðum krafti eftir markið og tvisvar skall hurð nærri hælum í vítateig heimamanna. Liverpool hefur síðan komist betur inní leikinn á ný.

12.52 - MARK, 0:1 á The Hawthorns - Swansea nær forystunni í West Bromwich þegar Ben Davies skorar glæsilegt mark eftir sendingu frá Pablo Hernández, á 22. mínútu.

12.34 - MARK, 1:0 á Anfield - Óskabyrjun hjá Liverpool þegar Daniel Sturridge fleytir boltanum í netið með höfðinu af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Steven Gerrard og skalla frá Daniel Agger, strax á 4. mínútu.

12.30 - Leikirnir eru hafnir á Anfield og The Hawthorns.

12.28 - Klappað er í eina mínútu á Anfield til að minnast Bill Shankly, en í gær eru 100 ár síðan þessi mikli frumkvöðull Liverpool-manna fæddist.

11.51 - Wayne Rooney er ekki með Manchester United þar sem hann meiddist á höfði á æfingu í gær. Kolo Touré er fjarri góðu gamni hjá Liverpool vegna meiðsla en Martin Skrtel tekur stöðu hans í vörninni.

Liðin í dag:

Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel, Agger, José Enrique, Gerrard, Lucas, Henderson, Aspas, Coutinho, Sturridge.
Varamenn: Brad Jones, Alberto, Sterling, Ibe, Kelly, Flanagan, Wisdom.

Man Utd: De Gea, Jones, Ferdinand, Vidic, Evra, Carrick, Cleverley, Young, Giggs, Welbeck, Van Persie.
Varamenn: Anderson, Smalling, Lindegaard, Hernández, Nani, Valencia, Buttner.

------------------------------------

West Brom: Myhill, Billy Jones, McAuley, Olsson, Ridgewell, Morrison, Yacob, Mulumbu, Sinclair, Long, Anelka.
Varamenn: Rosenberg, Brunt, Lugano, Dorrans, Luke Daniels, Dawson, Berahino.

Swansea: Vorm, Rangel, Chico, Williams, Ben Davies, Shelvey, Canas, Hernández, Michu, Routledge, Bony.
Varamenn: Amat, Britton, Lamah, de Guzman, Pozuelo, Tremmel, Richards.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka