Löw: Óskiljanleg ákvörðun hjá Real Madrid

Það styttist í að Mesut Özil geti mætt Ashley Cole …
Það styttist í að Mesut Özil geti mætt Ashley Cole og fleiri leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Joachim Löw landsliðsþjálfari Þýskalands í knattspyrnu segist ekkert skilja í þeirri ákvörðun forráðamanna Real Madrid að selja þýska landsliðsmanninn Mesut Özil til Arsenal.

Arsenal gekk frá kaupunum á Özil á mánudaginn en hann kostaði félagið 50 milljónir evra sem er algjört metfé í sögu Lundúnafélagsins, hæsta verð sem enskt félag greiddi fyrir leikmann í sumar og jafnframt hæsta upphæð sem Real hefur fengið fyrir leikmann. Real hafði þá gengið frá kaupum á Gareth Bale frá Tottenham fyrir tvöfalt hærra verð en Özil var keyptur á.

„Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvers vegna Real ákvað að láta frá sér leikmann sem hefur skapað svona mörg mörk, en svona er bransinn,“ sagði Löw á fréttamannafundi í dag. Özil hefur lagt upp 72 mörk á síðustu fimm leiktíðum, fleiri en nokkur annar.

„Mesut er viðkvæmur leikmaður og þarf að hafa fullt traust frá félagi sínu og þjálfara. Mér skilst að hann hafi ekki lengur haft það traust. Arsenal reyndi eins og það gat að fá hann,“ sagði Löw.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert