Gylfi skoraði og Tottenham á toppnum

Gylfi Sigurðsson vann tæklingu við John Terry og sekúndu síðar …
Gylfi Sigurðsson vann tæklingu við John Terry og sekúndu síðar lá boltinn í netinu. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark Tottenham í dag þegar lið hans gerði jafntefli, 1:1, við Chelsea í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á White Hart Lane í London.

Gylfi kom Tottenham yfir á 19. mínútu en John Terry jafnaði fyrir Chelsea á 65. mínútu. Leikmenn Chelsea voru manni færri á lokakaflanum eftir að Fernando Torres fékk rauða spjaldið en náði ekki að nýta sér liðsmuninn. Gylfi lék allan leikinn og var nærri því að skora sigurmark á 87. mínútu.

Tottenham er þar með efst í deildinni með 13 stig en Chelsea er með 11 stig í þriðja sætinu. Arsenal með 12 stig og Manchester City með 10 geta náð efsta sætinu af Tottenham síðar í dag.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

87. Gylfi Þór Sigurðsson er hársbreidd frá því að koma Tottenham yfir á ný með hörkuskoti frá vítateig. Hárfínt framhjá marki Chelsea!

81. RAUTT - Fernando Torres, sem hefur átt stórgóðan síðari hálfleik, brýtur á Vertonghen, fær sitt annað gula spjald og er rekinn af velli!

77. Hugo Lloris í marki Tottenham bjargar á síðustu stundu þegar André Schürrle sleppur í gegnum vörn Tottenham.

77. Jermain Defoe kemur inná hjá Tottenham fyrir Roberto Soldado.

76. Michael Dawson miðvörður Tottenham fær gula spjaldið fyrir að  bregða fæti fyrir Fernando Torres.

70. André Schurrle kemur inná fyrir Eden Hazard hjá Chelsea og hjá Tottenham kemur Lewis Holtby inná fyrir Christian Eriksen.

65. MARK - 1:1. John Terry jafnar fyrir Chelsea eftir aukaspyrnu frá Juan Mata. Ekta mark hjá fyrirliðanum, sterkastur í vítateignum og skorar með föstum skalla.

64. Jan Vertonghen varnarmaður Tottenham fær gula spjaldið fyrir brot á Ramires.

57. Juan Mata sleppur í gegnum vörn Tottenham og skorar - en er dæmdur rangstæður!

53. Fernando Torres með glæsilegan sprett í gegnum vörn Tottenham en Hugo Lloris bjargar í horn frá honum með góðu úthlaupi!

51. Fernando Torres framherji Chelsea fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Jan Vertonghen. Lítil snerting reyndar!

49. Fín sókn Chelsea en það vantar sentimetra uppá að Oscar nái almennilega til boltans í dauðafæri eftir sendingu frá Fernando Torres.

46. Seinni hálfleikur er hafinn. Juan Mata er kominn inná hjá Chelsea en Mikel John Obi fer af velli.

45. HÁLFLEIKUR. Terry með skalla rétt yfir. Hefði átt að gera betur þarna. Um leið flautar Mike Dean til hálfleiks. 

45. Paulinho með skot í stöngina. Towsnend gerði vel, kom boltanum á Paulinho en skot hans í utanverða stöngina. Brassinn óheppin.

28. He's quick, he's flash, he fills the air with ash, Sigurdsson... syngja stuðningsmenn Tottenham.

23. Stórhætta upp við mark Chelsea. Paulinho var við það að pota boltanum í netið en Ivanovic komst inn í sendinguna og kom boltanum í horn.

19. MARK - 1:0 - Staðan er 1:0 og það var Gylfi Þór Sigurðsson sem skoraði. Frábært spil og Gylfi skorar. Fær boltann frá Soldado, fer af harðfylgi í gegnum tæklingu við John Terry og sendir boltann í netið með vinstri.

15. Fyrsti stundarfjórðungirinn fer frekar rólega af stað. Mikið um stöðubaráttur inn á miðjum vellinum og lítið um opin færi.

11. Gylfi Sigurðsson í baráttunni við Ivanovic og kræti í aukaspyrnu á hættulegum stað. Gylfi búinn að byrja vel og vera töluvert í boltanum. 

1. Leikurinn er byrjaður

Lið Tottenham er þannig skipað: Lloris er í markinu; Walker, Dawson, Vertonghen, Naughton standa vörnina; Paulinho, Dembele; Townsend, Eriksen, Gylfi verða á miðjunni og Soldado einn frammi.

Chelsea gerir þrjár breytingar frá síðasta deildarleik. Cech er í markinu; Ivanovic,  Luiz, Terry og Cole eru í vörninni; Mikel, Lampard Ramires, Oscar og Hazard mynda miðjuna og Torres fær að byrja. Juan Mata er á varamannabekk Chelsea í dag.

Leiksins er beðið með töluverðri eftirvæntingu enda eru þarna að mætast fyrrum félagar, José Mourinho og fyrrum lærisveinn hans André Villas-Boas. Þeir voru eitt sinn nánir vinir og samstarfsmenn en eitthvað hefur slest upp á vinskapinn.

Leikir dagsins: 
11:45 Tottenham – Chelsea 
14:00 Aston Villa – Man City 
14:00 Fulham – Cardiff 
14:00 Hull City – West Ham 
14:00 Man Utd – West Bromwich Albion 
14:00 Southampton – Crystal Palace 
16:30 Swansea - Arsenal

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert