Arsenal er komið með fimm stiga forystu eftir sigur á Liverpool, 2:0, í uppgjöri toppliðanna í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu sem fram fór á Emirates-leikvanginum í London í kvöld.
Arsenal er þá komið með 25 stig en Liverpool sígur aftur niður í þriðja sætið, niðurfyrir Chelsea, en bæði liðin eru með 20 stig. Manchester City, Southampton og Tottenham eru með 19 stig og Everton 18. Á morgun mætast Everton og Tottenham og sigurliðið kemst uppí annað sætið.
Santi Cazorla kom Arsenal yfir á 19. mínútu leiksins og Aaron Ramsey bætti við öðru marki á 59. mínútu. Eftir það var sigur Lundúnaliðsins ekki í hættu en bæði lið fengu færi til að bæta við markatöluna.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
90. Leik lokið með sanngjörnum sigri Arsenal, 2:0.
90. Mesut Özil sleppur inní vítateig Liverpool, einn gegn Simon Mignolet í markinu en þrumar boltanum beint á hann!
88. Dauðafæri Liverpool - Luis Suárez sleppur inní vítateiginn vinstra megin en skýtur framhjá hægra megin. Vanur að afgreiða færin betur en þetta.
84. Nú fer Santi Cazorla af velli hjá Arsenal og Carl Jenkinson kemur inná. Wenger þéttir raðir sínar enn frekar.
83. Szczesny í marki Arsenal ver vel frá Philippe Coutinho af stuttu færi.
82. Thomas Vermaelen, fyrirliði Arsenal, fær loks tækifæri. Kemur inná sem vinstri bakvörður fyrir Kieran Gibbs sem er meiddur.
74. Luis Suárez í færi í markteignum hægra megin - boltinn strýkst framhjá stönginni fjær.
72. Hjá Arsenal er varnarsinnaðri skipting þar sem Nacho Monreal kemur inná fyrir Tomás Rosický.
70. Liverpool reynir að bæta í sóknina og er búið að setja Victor Moses inná fyrir Jon Flanagan.
59. MARK - 2:0. Aaron Ramsey fær boltann frá Mesut Özil rétt utan vítateigs Liverpool og skorar með fallegu skoti upp í markhornið vinstra megin. Sjötta mark hans í deildinni í haust.
57. Giroud aftur hættulegur í hraðri sókn Arsenal en skýtur beint á Mignolet í miðjum vítateignum, reyndar undir talsverðri pressu.
55. Slæm mistök hjá Kolo Touré, Olivier Giroud kemst inní sendingu hans og sleppur einn gegn Simon Mignolet í marki Liverpool en lyftir boltanum yfir hann og í hliðarnetið nær!
50. Liverpool byrjar seinni hálfleik af krafti. Jordan Henderson með skot frá hægra vítateigshorni en rétt yfir þverslána.
46. Seinni hálfleikur er hafinn. Philippe Coutinho er kominn inná hjá Liverpool fyrir Aly Cissokho.
45. Hálfleikur og staðan er 1:0 fyrir Arsenal. Engin dauðafæri litu dagsins ljós síðustu 15 mínútur hálfleiksins en þetta er hörkubarátta, góðir taktar beggja liða inná milli, og horfur á líflegum síðari hálfleik.
28. Simon Mignolet í marki Liverpool ver vel frá Aaron Ramsey og rétt á eftir fær Aly Cissokho, bakvörður Liverpool, gula spjaldið fyrir brot á Sagna.
25. Alvarleg mistök hjá Martin Atkinson dómara sem tekur mark af Liverpool - eða í það minnsta algjört dauðafæri. Luis Suárez var eldsnöggur að taka aukaspyrnu eftir að Bacary Sagna braut á honum og Atkinson stoppaði leikinn rétt áður en Jordan Henderson sendi boltann í mark Arsenal! Lætur taka aukaspyrnuna aftur, þó hún hafi verið löglega framkvæmd í alla staði, en reynir að klóra í bakkann með því að lyfta gulu spjaldi á Bacary Sagna.
24. Arsenal er eina liðið í deildinni sem hefur skorað í öllum sínum leikjum á tímabilinu og það breytist ekki í dag!
19. MARK - 1:0. Það er Santi Cazorla sem er þarna á ferð fyrir Arsenal. Skallar í stöng eftir fyrirgjöf frá hægri og þrumar svo boltanum sjálfur í netið í kjölfarið! Fjörugur leikur. Fyrsta mark Spánverjans í deildinni síðan í mars.
9. Jordan Henderson fær fyrsta færi Liverpool þegar hann leikur frá miðju inní vítateig Arsenal. Skot hans með vinstri er slakt og Szczesny ver auðveldlega.
6. Arsenal er meira með boltann á upphafsmínútunum og Tomás Rosický á hörkuskot hægra megin úr vítateig Liverpool sem Simon Mignolet ver í horn. Fyrsta færi leiksins.
1. Leikurinn er hafinn.
Jack Wilshere er ekki með Arsenal vegna meiðsla og Glen Johnson hjá Liverpool missir af leiknum vegna veikinda. Jon Flanagan er í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn í hálft annað ár en hann leikur sem hægri bakvörður.
Arsenal: Szczesny, Sagna, Mertesacker, Koscielny, Gibbs, Ramsey, Arteta, Rosický, Özil, Cazorla, Giroud.
Varamenn: Vermaelen, Monreal, Fabianski, Bendtner, Jenkinson, Akpom, Hayden.
Liverpool: Mignolet, Toure, Skrtel, Sakho, Flanagan, Gerrard, Lucas, Henderson, Cissokho, Sturridge, Suárez.
Varamenn: Brad Jones, Agger, Coutinho, Moses, Allen, Sterling, Kelly.