Neville: Gylfi er engin tía

Gylfi Þór Sigurðsson hefur oftast verið stillt upp á vinstri …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur oftast verið stillt upp á vinstri kantinum hjá Tottenham. AFP

Gary Neville, fyrrverandi leikmaður Man. Utd og nú sparkspekingur Sky-sjónvarpsstöðvarinnar, fór mikinn í umræðum um Tottenham-liðið í þættinum Monday Night Football þar sem fjallað var um 6:0-tapið gegn Man. City á sunnudag.

Gylfi Þór Sigurðsson var á varamannabekknum hjá Tottenham í leiknum en kom inná þegar staðan var orðin 5:0. Að mati Neville er Íslendingurinn ekki nægilega góður til að spila sem fremsti miðjumaður, „tían“ svokallaða sem leikur rétt fyrir aftan framherjann. Þjóðverjinn Lewis Holtby var í þeirri stöðu gegn City en Gylfa hefur oftast verið stillt upp á vinstri kantinum.

„Lewis Holtby er engin tía og heldur ekki Gylfi Sigurðsson. Christian Eriksen gæti verið svarið en ef svo er kemst maður ekki hjá því að spyrja sig hvers vegna ekkert félag í Evrópu var búið að kaupa hann fyrr,“ sagði Neville.

„Tíurnar hjá toppliðum þurfa að skora 10 mörk á tímabili og leggja upp 10-15 í viðbót, og í augnablikinu sé ég ekki neina ógn við markið á meðan það er ójafnvægi í liðinu. En það er mikið eftir af tímabilinu og Tottenham er ekki langt á eftir,“ sagði Neville.

Neville beindi einnig spjótum sínum að varnarmönnum Tottenham.

„Bakverðir Tottenham [Kyle Walker og Jan Vertonghen] voru of framarlega í ljósi þess að þeir voru að spila með Michael Dawson og Younes Kaboul. Maður vill ekki að þeir lendi í stöðunni maður gegn manni. Það er í lagi ef maður er með Ronald Koeman og Franz Beckenbauer sem miðverði og liðið getur spilað eins og það sé best í heimi, en skipulagið þarf að vera í samræmi við leikmennina og stöðuna sem liðið er í,“ sagði Neville.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert