Reknu milljarðamennirnir

Knattspyrnustjórar sem eru reknir frá liðum sínum eru ekkert á flæðiskeri staddir og eiga alveg fyrir salti í grautinn. Síðan Arsene Wenger tók við Arsenal árið 1996 hafa ensk knattspyrnufélög rekið 800 knattspyrnustjóra og borgað þeim 450 milljónir punda í starfslokasamninga. 

André Villas-Boas varð nýverið fimmti knattspyrnustjórinn í ensku úrvalsdeildinni til að vera rekinn á þessu tímabili en Portúgalinn var rekinn frá Tottenham. Tíðindin komu lítið á óvart í knattspyrnuheiminum en Villas-Boas réð ekki við að missa Gareth Bale og búa til nýtt lið. Eftir tap liðsins gegn Liverpool var Daniel Levy, aðaleigandi Tottenham, búinn að sjá nóg til að Villas-Boas myndi taka til á borðinu sínu og yfirgefa White Hart Lane. Næsti stjóri Tottenham verður sá níundi síðan Levy náði völdum í félaginu í febrúar 2001.

Aðrir stjórar sem hafa fengið að taka poka sinn á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni eru Paolo Di Canio (Sunderland), Ian Holloway (Crystal Palace), Martin Jol (Fulham) og Steve Clarke (WBA).

Búinn að kaupa flæðiskerið

André Villas-Boas fær fjórar milljónir punda í starfslokasamning sem gerir 762 milljónir. Fyrir rúmum tveimur árum var hann rekinn frá Chelsea og fékk 12 milljónir punda frá því félagi. Það eru 2,2 milljarðar. Hann afsalaði sér einhverjum hundrað köllum til að taka við starfinu hjá Tottenham en Villas-Boas er ekki á neinu flæðiskeri. Hann trúlega á þetta flæðisker núna búinn að raka inn tæpum þrem milljörðum í kassann. Þá á eftir að reikna með peningunum sem hann fékk til að taka við Chelsea. Þar voru nokkuð hundruð milljónir í spilunum. Chelsea er reyndar í sérflokki þegar kemur að peningum en Roman Abramovich, eigandi félagsins, krefst árangurs. Ef stjórarnir standa sig ekki eru þeir reknir og fá feitan starfslokasamning. Slíkt skiptir rússneska auðmanninn reyndar litlu máli en auðæfi hans eru nánast endalaus.

426 dagar án Wengers

Stutt er síðan Morgunblaðið birti grein þar sem starfsaldur knattspyrnustjóranna var reiknaður. Þegar Sir Alex Ferguson lét af störfum hjá Manchester United varð Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sá stjóri sem lengst hafði stýrt sama liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Frakkinn er búinn að stýra skútunni í norður London síðan 30. september 1996 eða í rúm 17 ár eftir að hann tók við af Pat Rice. Breytingarnar á Old Trafford höfðu þær afleiðingar að þeir tveir stjórar sem höfðu verið hvað lengst hjá sínum liðum, Sir Alex Ferguson hjá Manchester United 27 ár og David Moyes hjá Everton í 11 ár, eru ekki lengur í fyrsta og þriðja sæti. Knattspyrnustjórar duga varla í þúsund daga lengur samkvæmt útreikningum Tómasar Þórs. Sé Wenger tekinn úr jöfnunni er meðalstarfsaldur 426 dagar eða eitt ár og tveir mánuðir.

Chelsea er það félag sem hefur haft flesta knattspyrnustjóra í úrvalsdeildinni frá stofnun hennar 1992. 14 menn hafa stýrt liðinu á leiktíðunum 22 en með bráðabirgðastjórum er heildarfjöldinn 18.

Roberto Di Matteo, maðurinn sem kom með meistaradeildarbikarinn til Abramovich, var rekinn þegar hann var nánast enn að fagna meistaradeildartigninni. Hann þiggur enn 130 þúsund pund eða 24 milljónir í vikulaun. Hann var með samning til júní á árinu 2014 og fær þessar milljónir á meðan hann er ekki með starf annars staðar. Jose Mourinho fékk ævintýralegan starfslokasamning við Chelsea þegar hann var rekinn 2007. Hann átti þrjú ár eftir af samningi sínum við Chelsea og hafði sex milljónir punda í árslaun. Ekki er vitað hvað Chelsea borgaði honum til að fara en það sem er vitað er að Abramovich keypti handa honum forláta Ferrari 612 Scaglietti-bíl sem kostaði yfir 400 milljónir króna.

Luiz Felipe Scolari og allt hans þjálfaralið var aðeins átta mánuði í starfi og stýrði hann Chelsea í aðeins 36 leiki. Hann fékk 12 milljónir punda í starfslokasamning eða 2,2 milljarða. Þegar Claudio Ranieri og Avram Grant er hent inn í heildarsummuna sem Abramovich hefur greitt reknum knattspyrnustjórum er talan rúmlega 50 milljónir punda. Það er einn Fernando Torres.

Neitaði Dalglish?

Liverpool hefur heldur ekki sparað aurinn til að reka stjórana sína á undanförnum árum. Kenny Dalglish er sagður hafa fengið 8,25 milljónir punda í starfslokasamning en tvennum sögum fer af því hvort hann hafi þegið greiðsluna. Liverpool-hjarta hans slær enn og vildi hann frekar nýta peninginn í leikmenn en hann sjálfan. Roy Hodgson fékk 7,3 milljónir punda eða 1,4 milljarða eftir að hafa verið sex mánuði með félagið.

Þegar Manchester City vann Englandsmeistaratitilinn verðlaunaði félagið Roberto Manchini, sem þá var stjóri félagsins, hann með nýjum samningi. Skrifaði hann undir fimm ára samning. Einu ári og einum degi síðar var hann rekinn og gekk hann burt frá Etthiad-vellinum með sjö milljónir punda í vasanum. Stór vasi þar á ferðinni. Það eru 1,3 milljarðar. Trúlega hefði hann getað fengið meira ef hann hefði viljað og farið með mál sitt fyrir dómstóla. En eingreiðsla upp á milljarð er alltaf eingreiðsla upp á milljarð.

800 stjórar og 85 milljarðar

Síðan Arsene Wenger tók við liði Arsenal hafa ensk lið rekið rúmlega 800 knattspyrnustjóra í fjórum efstu deildunum. Starfslokasamningarnir telja 450 milljónir punda. Það eru 85 milljarðar króna.

En borgar sig alltaf að reka stjórann? Trúlega er Arsene Wenger skýrasta dæmið um mann sem hefur staðið af sér storminn með stuðningi frá félaginu. Það er auðvitað auðveldara að reka stjórann en liðið. En öll spjót stóðu að Wenger fyrir nokkrum mánuðum. Hann hefur jú ekki skilað bikar í hús í alltof mörg ár en hann skilar félaginu alltaf hagnaði og kemur því í Meistaradeildina. Slíkt er ígildi meistaratitils – allavega á Emirates.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert