Fagnaði Anelka að nasistasið?

Fagnið umdeilda hjá Anelka í dag.
Fagnið umdeilda hjá Anelka í dag. AFP

Nicolas Anelka, leikmaður West Brom, hafði ríka ástæðu til að fagna í dag en hann skoraði tvö mörk í 3:3 jafnteflisleiknum gegn West Ham. Hvernig hann fagnaði hefur hins vegar verið á milli tannanna á fólki.

Anelka er sagður hafa fagnað að sið nasista en Keith Downing, þjálfari West Brom, segir Anelka einungis hafa verið að styðja vin sinn. Þessi umræddi vinur er franski uppistandarinn Dieudonne M‘bala M‘bala, en hann er þekktur fyrir kveðjuna umdeildu.

„Þessar yfirlýsingar fólks hvað varðar fagnið eru ekki á rökum reistar. Það er algjört kjaftæði. Hann tileinkaði mörkunum frönskum grínista sem hann þekkir mjög vel. Hann var bara að styðja vin sinn,“ sagði Downing.

Gyðingar í Frakklandi hafa hins vegar kvartað yfir grínistanum og eru yfirvöld þar að skoða málið og gæti svo farið að sýningar hans yrðu bannaðar. Downing segir Anelka einungis hafa verið að styðja vin sinn í þeirri baráttu og skilji ekkert í fyrrnefndum ásökunum í sinn garð.

Enska knattspyrnusambandið er sagt ætla að skoða málið frekar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert