Spænski miðjumaðurinn Xavi er ákveðinn í að spila ekki í ensku úrvalsdeildinni eftir að Barcelona-ferlinum lýkur en þar hefur hann spilað allan sinn feril. Xavi lék 700. leikinn fyrir Barcelona á dögunum en hann er 34 ára gamall.
Hann hefur reglulega undanfarin ár verið orðaður við stærstu liðin á Englandi og sjálfur viðurkennir hann að nokkrum sinnum hafi honum borist áhugi liðanna til eyrna.
Xavi er aftur á móti svo mikill Börsungur að honum dettur ekki í hug að klæðast annarri treyju þegar dagar hans hjá Katalóníurisanum verða taldir.
„Það hefur ávallt verið talað um Chelsea, Man. City og Arsenal hafi viljað fá mig en ég hef aldrei verið með neitt fast í hendi. Fyrir mér var þetta einfalt: Ég er svo mikill aðdáandi Barcelona að númer eitt, tvö og þrjú vildi ég vera hér áfram,“ segir Xavi í viðtali við The Sun.
„Mér datt aldrei í hug að yfirgefa Barcelona eins og Cesc Fábregas sem fór til Arsenal. Ég vil vera hér að eilífu. Þegar ég verð ekki lengur leikmaður Barcelona mun ég alltaf hugsa um Barcelona. Ef ég hefði farið annað og spilað fyrir City, United, Arsenal eða Chelsea hefði ég ávallt spurt mig hvað væri í gangi hjá Barcelona – mínu félagi,“ segir Xavi.