Um áramót sagðist Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, ætla að vinna fjóra titla á þessu keppnisbili.
Héðan af verða þeir í mesta lagi tveir því í kjölfarið á háðulegu tapi gegn Wigan á sunnudaginn mátti City sætta sig við að tapa öðru sinni gegn Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld.
Katalóníuliðið vann þá, 2:1, á Camp Nou og sigraði 4:1 samanlagt í einvígi liðanna. Barcelona náði að hrista af sér slæmt tap í deildinni heimafyrir um síðustu helgi og Lionel Messi skoraði um miðjan síðari hálfleik. Hans 67. mark fyrir félagið í Meistaradeildinni, sem er nýtt met í markaskorun fyrir eitt og sama félag í þessari keppni. Raúl átti fyrra metið, 66 mörk fyrir Real Madríd.
Pablo Zabaleta fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða á 78. mínútu fyrir að mótmæla einum af mörgum umdeildum dómum í leiknum. Tíu City-menn náðu þó að jafna, Vincent Kompany rétt fyrir leikslok, 1:1, en Dani Alves skoraði sigurmark Börsunga, 2:1, í uppbótartíma.