Chelsea er komið með níu stiga forustu á Manchester City eftir stórsigur á Arsenal 6:0. Leikurinn var sýning þeirra bláklæddu frá upphafi til enda en það var þó dómarinn, Andre Marriner sem stal senunni með því að reka rangan mann af velli.
Leikurinn var frábær skemmtun fyrir alla aðra en stuðningsmenn Arsenal. Frábær fótbolti, falleg mörk og umdeildanleg atvik. Samuel Eto'o skoraði fyrsta markið á fimmtu mínútu og þjóðverjinn Schurrle bætti öðru marki við tveimur mínútum síðar.
Þá var komið að ákaflega furðulegu atviki en dómarinn Andre Marriner rak þá Kieron Gibbs af velli eftir að Alex Oxlade-Chamberlain hafði handleikið knöttinn! Já, vitlaus maður rekinn af velli. Verður trúlega mikið rætt og ritað um þetta atvik enda ekki á hverjum degi sem þetta gerist.
Oxlade-Chamberlain náði sér engan veginn á strik eftir þetta og var tekinn af velli í hálfleik þar sem Chelsea leiddi 4:0 eftir að Oscar skoraði skömmu fyrir hálfleik.
Síðari hálfleikur var síðan frekar rólegur - svona miðað við fyrri hálfleikinn. Chelsea var þó sterkara og voru líklegri að bæta við mörkum nánast í hverri sókn.
Chelsea leit gríðarlega vel út í þessum leik og hver veit nema að þeir verði á toppnum þegar 38 umferðir verða búnar.
Chelsea - Arsenal 6:0
Samuel Eto'o (5.) Andre Schurrle (7.) Edin Hazard (17.) Oscar (44.) (65.) Salah (70.)
14.35. Búið. 6:0 takk fyrir. José Mourinho tók ekki í höndina á Wenger þegar hann fór inn í búningsklefa. Þeir eru litlir vinir en það verður að bera virðingu fyrir handabandinu.
14.20 Stuðningsmenn Arsenal eru farnir að ganga út af Stamford Bridge. Búnir að fá nóg. Samanlagt er markatala Arsenal gegn Chelsea, Man. City og Liverpool 16:4. Það er ekkert sérstakt.
14.14. MARK Staðan er 6:0 Hvar endar þetta eiginlega. Egyptinn Sallah hljóp einn í gegn og skoraði. Þetta var alltof einfalt. Það eru enn 20 mínútur eftir og ef Arsenalmenn eru hættir í þessum leik endar hann með tveggja stafa tölu.
14.09. MARK. Staðan er 5:0 Oscar með sitt annað mark og lýkur þar með keppni. Hann er bara tekinn af velli í miðjum fagnaðarlátunum. Sallah kom í staðinn fyrir hann. En Szczesny hefði nú átt að verja þetta skot Oscars, sá boltann allan tímann en inn fór hann.
14:05. Oscar með ágæt skot en Szczesny slær boltanum í horn. Chelsea líklegra að bæta við fimmta markinu en Arsenal að minnka muninn.
13.51. Frábærlega varið hjá Szczesny eftir að Torres hafði spólað sig í gegnum vörn Arsenal, skot hans var varið af Mertesecer en boltinn barst á Luiz en Szczesny varði.
13:48. Þetta er komið aftur af stað. Wenger gerði tvær breytingar í hálfleik. Flamini kom inná í stað Oxlade-Chamberlains sem náði sér ekki á strik eftir að hafa ekki fengið rauða spjaldið. Koscielny kom einnig inná.
13.30 Marriner dómari hefur flautað til leikhlés. Magnaður fyrri hálfleikur hjá heimamönnum. Þetta hefur verið sýning hjá þeim á meðan Arsenal minnir á sama lið og tapaði fyrir Liverpool forðum daga. Ekki ofboðslega miklar líkur á sigri Arsenal í þúsundasta leik Wengers. Jæja, við tökum okkur smáhlé líka og fáum okkur kaffi og heimabakað bananabrauð.
13.26 MARK. Staðan er 4:0. Sýnir aldeilis hvað maður veit mikið um fótbolta. Þeir hægðu ekkert ferðina heldur bara bættu við. Nú var það Brassinn Oscar sem skoraði eftir undirbúning Fernandos Torres.
13.22. Chelsea er aðeins búið að róa hraðann í leiknum, algjör óþarfi að sprengja sig í fyrri hálfleik. Þeir eru jú yfir 3:0 og manni fleiri. Halda bara boltanum innan liðs og láta gestina hlaupa.
13.15. Heppni með Arsenal. David Luiz með þrumuskot sem fór í Schurrle en Szczesny var vel vakandi og varði í horn. Það vantar allt lýsi í Arsenalmenn.
13:11. Oxlade-Chamberlain gekk að Marriner og sagði hátt og skýrt: „Þetta var ég, þetta var ég,“ en Marriner hlustaði ekki og rak Gibbs af velli.
13.09. Pínu fyndið að með allri tækninni sem er kominn í fótboltann að þá er hægt að reka vitlausan mann af velli. Þeir Gibbs og Oxlade-Chamberlain eru alveg pínu líkir en samt ekki svo líkir. Þeir eru ekkert tvíburar. Wenger tekur Podolski af velli og setur Vermaalen inná.
13.03. Ég er svo aldeilis hissa. Endursýningar sýna viðbrögð Gibbs við að fá þetta óvænta rauða spjald sem eru auðvitað kostuleg enda átti hann alls ekki að vera rekinn af velli. Hann var hvergi nálægt. Mjög sérstakt samt hjá Oxlade-Chamberlain að slá boltann með hendinni - boltinn var jú á leið framhjá.
13:01. MARK. Víti. Staðan er 3:0 Nú já. Marriner rak Kieron Gibbs af velli fyrir hendina sem Oxlade-Chamberlain gerði. Víti dæmt og Hazard skorar. Ég skal segja ykkur það. Maður veit ekki alveg hvað er í gangi en hann rak kolvitlausan mann af velli.
13:00 Hvað er í gangi á Brúnni? Oxlade-Chamberlain varði skot Hazards með hendi en dómarinn sá það ekki. Einhver rekistefna í gangi.
12:59. Nú syngja stuðningsmenn Chelsea: „Arsene Wenger, we want you to stay.“
12:55. Ja hérna hér. Maður hamrar bara og hamrar á lyklaborðið, slík eru lætin í leiknum. Biðst afsökunar ef það detta inn stafsetningarvillur. En það er veisla í boði á Brúnni, þó Mourinho sé ekki beint brosandi - ótrúlegt en satt. Staðan er jú 2:0 fyrir þá bláklæddu.
12:54 SKIPTING. Samuel Eto'o þarf að yfirgefa völlinn. Tognaði aftan í læri. Trúlega ekki hitað nógu vel upp. Fernando Torres kemur í staðinn.
12:52 MARK. STAÐAN ER 2:0. Arsenal missti boltann á miðjusvæðinu, jogguðu til baka á meðan Chelsea hljóp með boltann. Þjóðverjinn André Schurrle fékk boltann, tók á rás og dúndraði boltanum í markið. Ótrúlegt en satt. Er sagan gegn Liverpool að endurtaka sig? Ég skal segja ykkur það.
12:50 MARK.Staðan er 1:0. Samuel Eto'o er búinn að koma Chelsea yfir með frábæru marki. Gamla góða „tékkið“ hjá Eto'o. Hótaði skotinu með vinstri, plataði Chamberlain upp úr skónum, lagði hann fyrir sig með vinstri og plantaði boltanum í fjærhornið, óverjandi fyrir Szczesny.
12:48 Chelsea fær fyrsta hálffærið. Schurrle sendi fína sendingu fyrir en aðeins of föst og boltinn fór í hendurnar á Szczesny. Skömmu síðar fékk Arsenal fínt færi.
12:45 Jæja, þetta er komið af stað. Fátt skemmtilegra en að hefja helgina með stórleik í enska boltanum. Góða skemmtun.
12.30 Það er Andre Marriner sem heldur um flautuna í þessum leik. Marriner hefur dæmt 24 leiki með Chelsea á ferlinum en þetta er í fyrsta sinn sem hann dæmir hjá þeim í ár.
12.17 Það er fínasta veður í Lundúnum. Ollie Holt, blaðamaður íþróttastjóri Daily Mirror, tísti um þennan fagra laugardagsmorgun með mynd.
11:53 Byrjunarliðin eru komin. Sænski miðjumaðurinn Kim Kallström er kominn á bekkinn hjá Arsenal.
Byrjunarlið Chelsea: Cech; Ivanovic, Terry, Cahill, Azpilicueta; Matic, Luiz, Schurrle, Oscar, Hazard; Eto'o.
Varamenn: Lampard, Torres, Mikel, Salah, Ba, Schwarzer, Kalas.
Byrjunarlið Arsenal: Szczesny, Sagna, Mertesacker, Koscielny, Gibbs, Arteta, Rosicky, Oxlade-Chamberlain, Cazorla, Podolski, Giroud
Varamenn: Vermaelen, Flamini, Fabianski, Sanogo, Jenkinson, Kallstrom, Gnabry.
11:30 Liðin eru ekki kominn í hús en spennan er mikil fyrir þessum leik. Ensku blöðin spá því að Samuel Eto'o byrji í framlínunni hjá Chelsea með Oscar, Schurrle og Hazard fyrir aftan sig. Giroud verður frammi ef spár rætast með Ox-Chamberlain, Cazorla og Rosicky fyrir aftan sig.
Wenger hefur unnið 572 leiki sem stjóri Arsenal, gert jafntefli 235 sinnum og tapað 192 sinnum. Arsenal hefur skorað 1.845 mörk á þessum tíma, unnið þrjá deildartitla og fjóra FA-bikara á þessum 18 árum sem Wenger hefur stýrt liðinu.
Þetta er einn af úrslitaleikjum mótsins en það stefnir í eina mest spennandi titilbaráttu í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi þar sem Chelsea, Liverpool, Arsenal og Manchester City koma til með að heyja blóðuga baráttu um meistaratitilinn.