José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að eiginkona hans, Matilde, hafi stöðvað hann í þeim áformum sínum fyrir sjö árum að gerast landsliðsþjálfari Englands.
Mourinho var nýhættur hjá Chelsea eftir fyrri dvöl sína hjá Lundúnaliðinu haustið 2007 þegar Steve McClaren var sagt upp störfum í kjölfar þess að England komst ekki á EM 2008.
„Á þessum tímapunkti gat ég ekki tekið við öðru ensku liði því samkvæmt starfslokasamningi mínum hjá Chelsea mátti ég ekki stýra öðru liði í Englandi næstu tvö árin. Ég gat hins vegar tekið við landsliðinu. Lampard, Terry, Joe Cole og fleiri og fleiri hvöttu mig stöðugt til að taka við liðinu. Þeir sögðu við mig að leikmenn Manchester United og Liverpool væru stöðugt að suða í þeim – fáið stjórann ykkar til að taka við. Ég fékk fullt af jákvæðum áskorunum,“ sagði Mourinho við Sky Sports í Brasilíu, þar sem hann starfar á vegum Yahoo á meðan heimsmeistarakeppnin stendur yfir.
„Það var hins vegar konan mín sem taldi mig á að hafna þessu og hún hafði rétt fyrir sér. Ég hefði aldrei getað beðið í tvö ár eftir næsta stórmóti. Ég hefði ekki getað eytt tveimur árum í landsleiki gegn Kasakstan og San Marínó. Hvað hefði ég átt að gera frá viku til viku? Ég hefði þurft að ferðast, fylgjast með leikmönnum, reyna að taka þátt í þróun þeirra og svo framvegis. En að lokum var það konan mín sem tók af skarið og sagði að ef ég hefði ekki æfingarnar og leikina frá viku til viku væri þetta ekki gott fyrir mig," sagði Mourinho.
„Þetta var hárrétt hjá henni. Þetta var ekki rétta starfið fyrir mig fyrir sjö árum, og það er það ekki ennþá og verður ekki næstu sjö árin. Kannski ég gæti orðið landsliðsþjálfari eftir fimmtán ár," sagði Portúgalinn.