Samkvæmt enskum fjölmiðlum eru komnar skýrar línur í yfirvofandi leikmannaskipti Tottenham og Swansea þar sem Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsmaður fer að óbreyttu til velska félagsins.
Ben Davies, landsliðsbakvörður Wales, er metinn á 10 milljónir punda og sagt er að það sé upphæðin sem Tottenham vill fá fyrir Gylfa.
Michel Vorm markvörður Swansea fer væntanlega líka til Tottenham og verður þá keyptur fyrir fimm milljónir punda, samkvæmt Telegraph, sem segir að þrátt fyrir þessar reikningskúnstir verði salan á hverjum leikmanni fyrir sig afgreidd sérstaklega.
Bæði Tottenham og Swansea eru í æfingaferðum í Bandaríkjunum en Davies hefur þegar yfirgefið herbúðir Swansea til að gangast undir læknisskoðun hjá Tottenham. Óstaðfestar fréttir herma að Gylfi hafi gert slíkt hið sama en hann lék ekki með liðinu gegn Seattle Sounders á laugardagskvöldið eins og til stóð.