Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao, sem er tiltölulega nýkominn af stað eftir krossbandsslit, sá um að tryggja Monaco 1:0-sigur á Arsenal í Emirates-bikarnum í dag.
Falcao skoraði eina markið skömmu fyrir leikhlé með skalla eftir aukaspyrnu frá Joao Moutinho. Þetta var aðeins annar leikur Kólumbíumannsins eftir að hann sleit krossband í hné síðastliðinn vetur.
Úrslitin þýða að Arsenal mistókst að vinna Emirates-bikarinn, hið árlega æfingamót sem félagið heldur, í fyrsta sinn frá árinu 2010. Valencia fór með sigur af hólmi.
„Við sáum það skýrt í dag hvað mikið getur breyst í fótbolta á 24 tímum,“ sagði knattspyrnustjórinn Arsene Wenger eftir leik, en Arsenal rúllaði yfir Benfica í gær, 5:1. Hann sagði leikinn í dag ákveðna viðvörun nú þegar skammt er í að enska úrvalsadeildin hefjist.
„Monaco á hrós skilið, þeir voru beittari en við í dag og við áttum skilið að tapa. Þetta var góð viðvörun fyrir okkur og sýndi að við erum ekki alveg tilbúnir líkamlega,"“ sagði Wenger.