United niðurlægt af C-deildarliði

Leikmenn MK Dons höfðu ástæðu til að fagna vel stórsigri …
Leikmenn MK Dons höfðu ástæðu til að fagna vel stórsigri á Manchester United í kvöld. AFP

Ekki byrjar leiktíðin vel hjá enska knattspyrnuliðinu Manchester United. Liðið tapaði fyrir Swansea, 2:1 í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar, gerði svo 1:1-jafntefli við Sunderland í 2. umferð og í kvöld tók steininn úr þegar United tapaði 4:0 fyrir C-deildarliðinu MK Dons í 2. umferð ensku deildabikarkeppninnar.

William Grigg kom MK Dons yfir á 25. mínútu og bætti svo við öðru marki á 63. mínútu. Þá var röðin komin að Benik Afobe sem skoraði næstu tvö mörk á 70. og 84. mínútu og úrslit leiksins urðu 4:0. Vörn Manchester United leit ekki vel út í mörkunum, og ljóst að lítill árangur næst með varnarleiknum sem sást hjá rauðklædda liðinu úr Manchester-borg í kvöld.

Hollendingurinn Louis van Gaal sem tók við sem knattspyrnustjóri United í sumar bíður því enn eftir sínum fyrsta sigri sem stjóri liðsins, en næsti leikur United er gegn Burnley í 3. umferð ensku úrvalsdeildinnar á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert