Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði á fréttamannafundi í dag að nýr samningur við franska framherjann Olivier Giroud væri í höfn.
Samningurinn mun gilda til ársins 2018. „Þetta er frágengið. Þegar allt er endanlega á hreinu munum við gefa það formlega út," sagði Wenger á fundinum þar sem annars var til umræðu leikur liðsins gegn Galatasaray í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.
Arsenal keypti Giroud af Montpellier fyrir 13 milljónir punda sumarið 2012 og hann skoraði 22 mörk fyrir liðið á síðasta tímabili. Hann er frá keppni í bili með brotið bein í fæti og spilar væntanlega ekki aftur fyrr en eftir áramótin.