Hættir ef nafninu verður ekki breytt

Leikmenn Hull City fagna marki.
Leikmenn Hull City fagna marki. AFP

Eigandi enska knattspyrnufélagsins Hull City, Assem Allam, kveðst ætla að hætta að leggja fjármuni til þess ef honum verður bannað að gefa því nýtt nafn, Hull Tigers.

Umsókn þar að lútandi var hafnað af enska knattspyrnusambandinu síðasta vor. Allam áfrýjaði þeirri ákvörðun og enn er niðurstöðunnar beðið.

Allam, sem er 75 ára gamall, kom Hull City til bjargar fyrir fjórum árum þegar félagið var komið í greiðslustöðvun. Það vann sig upp í úrvalsdeildina vorið 2013, náði að halda sér uppi síðasta vetur, og Allam keypti leikmenn fyrir 30 milljónir punda í sumar til að styrkja stöðu þess fyrir baráttuna á þessu tímabili.

Eigandinn segir að nafnbreytingin sé nauðsynleg til þess að koma félaginu lengra og gera það að sterkara nafni á heimsmarkaðnum.

„Ég er hættur að borga ef ljóst er að tekjurnar verða ekki meiri. Annars væri ég að henda peningunum. Ef við ætlum að gera félagið öflugt á heimsvísu þarf nafnið að vera sterkt. Ég vil ekki gefa félaginu nýtt nafn, ég ætla ekki að breyta því í Hull Viking, Hull Allam eða Hull eitthvað annað. Félagið hefur verið kennt við City í 110 ár og nafnið Tigers hefur verið tengt því. Nú viljum við stytta nafnið til að gera vörumerkið öflugra, rétt eins og Coca Cola, Twitter eða Google. Það gengur ekki að félagið heiti Hull City Association Football Club Tigers Ltd. Þannig slær það ekki í gegn," sagði Allam við BBC.

Hann hefur lagt félaginu til rúmar 70 milljónir punda af eigið fé síðan hann keypti það fyrir fjórum árum en þessi egypski kaupsýslumaður hefur þó ekki sérstakan áhuga á fótbolta.

„Nei, ég er ekki áhugamaður um fótbolta, var það aldrei og er það ekki ennþá. Ég er áhugamaður um samfélagið hérna í Hull. Ég kom að þessu máli þegar fjölmiðlarnir fóru að fjalla um að félagið væri að  fara í greiðslustöðvun og velta vöngum yfir því hvort það myndi verða lagt niður. Ég áttaði mig á því hversu gríðarstórt mál fótboltinn er í þessu samfélagi," sagði Allam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert