Balotelli viðurkenndi barnaskap

Mario Balotelli sem áhorfandi á leik með Liverpool.
Mario Balotelli sem áhorfandi á leik með Liverpool. AFP

Ítalski knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli viðurkennir að hafa verið of barnalegur þegar hann setti mynd á samskiptavefinn Instagram fyrr í þessum mánuði og lét ógætileg orð fylgja með.

Balotelli var sektaður um 25 þúsund pund fyrir uppátækið og þurfti að taka út eins leiks bann hjá Liverpool, sem þýddi að hann spilaði ekki með liðinu gegn Arsenal um síðustu helgi.

Formaður aganefndar hefur nú gefið út að Balotelli hafi ekki ætlað sér að móðga neinn með þessu uppátæki. Hann setti inn mynd af fígúrunni Super Mario og skrifaði með: „Stekkur eins og svartur maður og grípur peninga eins og gyðingur."

„Balotelli kvaðst sjá mikið eftir því að hafa sett myndina inn og að hann hefði fjarlægt hana um leið og aðrir notendur bentu honum á að hún gæti móðgað einhverja. Hann sagði að sér hefði verið brugðið þegar honum var bent á að þetta gæti verið móðgandi, því hann hefði ekki áttað sig á merkingu ummælanna sem voru á myndinni," skrifaði Roger Burnden, formaður aganefndarinnar.

Þá kom fram að Balotelli hefði skýrt aganefndinni frá því að hann hefði sjálfur mátt þola kynþáttahatur oft og mörgum sinnum. Hann hefði tekið fram að hann væri ættaður frá Gana og að amma sín í móðurætt hefði verið gyðingur og hún hefði flúið frá Þýskalandi þegar nasistar voru þar við völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert