Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus, segir ekkert hæft í fréttum þess efnis að félagið hyggist fá ítalska framherjann Mario Balotelli frá Liverpool í þessum mánuði.
Balotelli hefur gengið skelfilega hjá Liverpool og aðeins skorað tvö mörk fyrir liðið síðan hann kom frá AC Milan fyrir 16 milljónir punda í ágúst. Hann á enn eftir að skora deildarmark.
Allegri stýrði Balotelli hjá Milan en segist ekki koma til með að endurnýja kynnin við framherjann á næstunni.
„Ég held að þessi frétt sé hreinn uppspuni. Balotelli hefur staðið sig mjög vel fyrir mig en hann er í eigu Liverpool og er ekki leikmaður sem getur komið til Juventus,“ sagði Allegri.