Mario Balotelli hefur tjáð sig um vítaspyrnuna sem tröllriðið hefur fréttum og samskiptamiðlum eftir 1:0-sigur Liverpool á Besiktas í Evrópudeildinni í gærkvöldi.
Jordan Henderson var fyrirliði Liverpool þegar liðið fékk vítaspyrnu undir lok leiksins. Balotelli vildi hins vegar taka spyrnuna og sást greinilega að Henderson var ekki skemmt. Steven Gerrard gagnrýndi svo ítalska framherjann opinberlega í viðtölum eftir leikinn fyrir að taka fram fyrir hendurnar á Henderson.
Balotelli hefur tjáð sig um málið á Instagram-síðu sinni þar sem hann, af öllum mönnum, segir fólki að slaka á enda hafi Liverpool unnið leikinn.
„Takk Henderson fyrir að leyfa mér að taka vítaspyrnuna. Hættið öllu þessu drama núna, við unnum leikinn og það er það eina sem skiptir máli. Við erum lið og það sem meira er, við erum Liverpool. Ekki láta svona,“ sagði Balotelli.