Dómarinn Michael Oliver gerði hárrétt með því að vísa Argentínumanninum Ángel Di Maria að velli í leiknum gegn Arsenal á Old Trafford í gærkvöld.
Þetta segir Graham Poll fyrrverandi dómari í ensku úrvalsdeildinni en Di Maria fékk reisupassann 13 mínútum fyrir leikslok þegar hann togaði í treyju dómarans eftir að hann fékk gult spjald fyrir leikaraskap.
„Di Maria varð að fara af leikvelli fyrir að að grípa í treyju dómarans. Leikmaðurinn Þarf nú að bíða eftir viðbrögðum enska knattspyrnusambandsins en ég vona að þau verði ekki hörð. Þar sem Oliver gaf honum seinna gula spjaldið þá er ólíklegt að enska knattspyrnusambandið refsi honum eitthvað meira,“ segir Poll við enska blaðið Daily Mail.
Di Maria fær væntanlega eins leiks bann og hann missir þá af leik United gegn Tottenham á sunnudaginn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Di Maria fær að líta tvö gul spjöld og þar með rautt spjald á nokkrum sekúndum en það gerðist í leik með Real Madrid gegn Deportivo La Coruna fyrir tveimur árum.