Uppselt er á toppslag Arsenal og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á heimavelli Arsenal, Emirates, 26. apríl næstkomandi. Miðar eru til sölu á miðasölusíðum og fara þeir alls ekki ódýrt. Hæsta verð fyrir stakan miða eru 950 pund, sem eru rúmlega 192 þúsund íslenskar krónur!
Miðar á svokallaða A leiki, eins og leikurinn gegn Chelsea er, kosta allt að 97 pund, um 19.600 krónur, á heimasíðu Arsenal. Miðar á heimaleiki Arsenal eru þeir dýrustu í deildinni.
Vefsíða, sem selur miða á leikinn, er með miða í áhorfendahólf Chelsea manna á allt að 950 pund stykkið. Dýrasti miðinn sem er í boði fyrir stuðningsmenn Arsenal kostar 712,50 pund, 144.300 krónur. Miðaverðið er því búið að margfaldast frá hinum upprunalegu 97 pundum
Leikurinn gæti orðið mikilvægur í titilbaráttunni en Arsenal er í öðru sæti deildarinnar og bíður færis ef Chelsea misstígur sig. Eins og staðan er núna er Chelsea sjö stigum á undan og á auk þess leik til góða.