Breska blaðið The Independent segir að Raheem Sterling vilji alls ekki þurfa að skipta um félag á síðustu dögum félagaskiptagluggans í ágúst, og missa þar með af undirbúningstímabili með liðsfélögum sínum.
Sterling hefur mikinn áhuga á að yfirgefa Liverpool fyrir hærra skrifað lið í sumar og hugnast að ganga í raðir Manchester City, segir Independent. Liverpool hafnaði tilboði frá City í enska landsliðsmanninn upp á 25 milljónir punda, auk 5 milljóna punda aukagreiðslu sem yrði háð skilyrðum. Búist er við því að City leggi fram nýtt tilboð upp á allt að 35 milljónum punda á næstu dögum.
Sterling vill eiga gott tímabil næsta vetur með hugann meðal annars við Evrópumeistaramótið í Frakklandi. Hann vill ekki að hugsanleg félagaskipti komi niður á undirbúningstímabilinu heldur að þau verði frágengin vel tímanlega fyrir 8. ágúst, þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst að nýju.
Arsenal hafði áhuga á að fá Sterling en eftir að City sýndi áhuga er ljóst að kappinn er orðinn of dýr fyrir Arsene Wenger, að sögn Independent. Chelsea hefur einnig áhuga en vill ganga frá sínum málum snemma.